30.8.25

Laugardagur

Þar sem töluverður tími fór í alls konar hugsanir og áætlanir þegar ég rumskaði um tvö í fyrrinótt var ég ekki tilbúin að fara á fætur um sex leytið. Klukkan var reyndar farin að ganga níu þegar fasteignasalinn hringdi í mig. Það kom beiðni frá kaupendunum um hvort þau mættu koma með smið með sér í næstu viku. Við ákváðum að það væri velkomið að koma eftir hádegi á mánudaginn kemur. Sagði henni frá tilboðinu og hún ráðlagði mér að breyta því aðeins, hafa hærri fyrstu útborgun, aðal greiðsluna hæsta eftir að ég væri búin að fá tvær innborganir frá kaupendunum og halda eftir einni millijón sem ég greiddi upp við afsal. Sendi strax á hinn fasteignasalann. Um ellefu leytið fékk ég send ýmis gögn og tillögu að tilboði sem hún ráðlagði mér að fá fasteignasalann minn til að lesa yfir. Aðeins þurfti að breyta smá en rétt fyrir hádegi í gær skrifaði ég rafrænt undir kauptilboð frá mér sem gildir til klukkan 12 nk mánudag. Um miðjan dag uppgötvaði ég það að ég hafði skilið fjölmiðlamælinn minn eftir undir koddanum en ekki sett hann í vasann þegar ég fór á fætur á níunda tímanum. Ekkert varð úr sjó- eða sundferð í gær en um hálffjögur fór ég út í nokkuð góðan göngutúr. Settist niður á bekk í Öskjuhlíðinni eftir klukkutíma göngu, þaðan átti ég svo 13 mínútur eftir heim eftir rúmlega hálftíma setu á bekknum og nokkur símtöl.

29.8.25

Föstudagur

Í gærmorgun var ég mætt á braut 7 um hálfátta. Hafði brautina alveg útaf fyrir mig. Synti 600 á rúmum 25 mínútum, flesta á bakinu en sennilega uþb 200m skriðsund líka. Hitti svo kaldapotts vinkonu mína í okkar fyrstu ferð af fimm í kalda pottinum. Gaf mér mjög góðan tíma í alla rútínu þannig að í heildina tók sundferðin rétt rúmlega tvo tíma. Kom heim rétt fyrir tíu. Um ellefu tæmdi ég rauða bakpokann og labbaði með hann á bakinu í Fiskbúð Fúsa. Þar verslaði ég harðfisk, ýsu, sneið af laxi og nokkrar glútenlausar fiskibollur til að smakka. Var komin heim aftur fyrir klukkan tólf. Setti upp kartöflur og ýsuna. Harðfiskurinn fór í eina skúffu og laxabitinn og fiskibollurnar í frystinn. Var alltaf á leiðinni út aftur en gleymdi mér aðeins við lestur; Völundur eftir Steindór Ívarsson, mjög spennandi bók. Rétt fyrir fimm var ég mætt á opið hús á tveggja herbergja íbúð á 4. hæð við Núpalind. Sama hæð og blokk og ég fór á opið hús á þriggja herbergja íbúð sl. þriðjudag. Einhvern veginn leið mér strax eins og ég væri að koma heim þegar ég kom í íbúðina í gær og nú er verið að setja saman tilboð frá mér í fasteignina. Hringdi í tvíburahálfsystur mína strax og ég var búin að skoða og taka með mér upplýsingar. Við sammæltumst um að ég kæmi til hennar um átta leytið. Fór heim í millitíðinni að melta hughrifin og sendi m.a. póst á fasteignasalann. Mætti til Sonju rúmlega átta. Hún hjálpaði mér við að gera ferilsskrá svo ég geti farið að demba mér út í atvinnuleit. Kvöldið leið ótrúlega hratt og var klukkan orðin hálfellefu áður en ég kvaddi og fór heim. Þurfti svo auðvitað að lesa smávegis áður en ég fór að sofa. 

28.8.25

Fimmtudagur

Í gærmorgun var ég vöknuð rétt upp úr klukkan fimm. Sofnaði ekki aftur en fór þó ekki á fætur fyrr en um sex. Í gær var sjósundsdagur en áður en ég skellti mér í sjóinn fór ég í bókabúð vestur á Fiskislóð til að kaupa námsbók fyrir mág minn sem byrjar í sínu meistaranámi eftir næstu helgi. Hringdi í mág minn og spurði hvernig hann vildi að ég kæmi pakkanum til hans. Um tvær leiðir var að velja; fá Advania vinnuna hans til að senda honum eða fara með þetta beint í flug. Hann valdi seinni leiðina. Var heppin að fá stæði við Nauthólsvík, mjög nálægt Nauthól, þegar ég kom þangað tuttugu mínútum yfir ellefu. Sjórinn 12,1°C og ég synti út að kaðli. Eftir tíu mínútur í gufunni á eftir fór ég aftur út í sjó. Kom ekkert við í pottinum áður en ég fór upp úr.  Næst lá leiðin í Eymundsson í Kringluna þar sem ég fjárfesti í umslagi utan um námsbókina og merkipenna. Þegar ég kom í bílinn aftur setti ég bókina í umslagið, lokaði því og merkti. Fór svo beint út á flugvöll. Klukkan var farin að ganga tvö þegar ég kom heim aftur. Upp úr klukkan fjögur dreif ég mig af stað yfir í Kópavoginn. Var búin að mæla mér mót við fasteignasala vegna Lautasmára 3 um hálffimm. Ég var mætt nokkrum mínútum fyrir það en fasteignasalinn tafðist í umferðinni. Hann lét mig vita og ég beið róleg. Hann kom tíu mínútum fyrir sex. Íbúðin er alveg fín. Svalirnar eru ekki yfirbyggðar, snúa út að Smáralindinni og þaðan kemur mikill umferðarniður. Skoðaði einnig geymsluna í kjallaranum, þar er ágætis pláss. Tók með mér gögn um íbúðina og fasteignasalinn benti mér á að ég mætti alveg bjóða lægra en uppsett verð ef ég hefði hug á því að kaupa. Eigendur eru fluttir til Ástralíu og íbúðin hefur verið í útleigu. Málið er samt að þótt staðsetningin sé ágæt, nóg af stæðum og að ég gæti fengið íbúðina afhenta við undirskrift kaupsamnings er ég ekki alveg að finna mig þarna. Ég verð að vanda mig og gefa mér smá tíma. Er viss um að allt er í hárréttum farvegi.

27.8.25

Smá valkvíði

Var vöknuð fyrir klukkan sex en festist í smá rútínu svo klukkan var að verða sjö þegar ég fór úr húsi. Fyrst lá leiðin á Reykjavíkurflugvöll, bygginguna þar sem tekið er á móti eða sóttir pakkar í flug. Of seint var að senda pakkann með fyrstu vél, hefði þurft að mæta amk korteri fyrr. En það kom reyndar ekki að sök þótt pakkinn færi með næsta flugi sem var rúmlega ellefu. Ég var svo mætt í Laugardalinn stuttu fyrir hálfátta. Fór beint á braut 8 og synti 500m, þar af helminginn skriðsund. Ég kom heim aftur upp úr klukkan níu. Ég var ekkert voðalega dugleg í sýslinu. Var meira og minna að fletta fasteignasíðunum, lesa og stundum glápa á eitthvað. Hitti frænku mína og nöfnu um fimm við Núpalind 6. Vorum á undan fasteignasölunum enda var opna húsið auglýst frá 17:15. Leist enn betur á þessa blokk og þessa íbúð heldur en íbúðina við Funalind. Ég er einnig búin að sjá að það er opið hús á sömu hæð á morgun þar sem er tveggja herbergja íbúð til sölu. Myndirnar frá henni kalla á mig og það er spurning hvort ég athuga hvort ég geti fengið forskot á að skoða. Með öllum íbúðum í húsinu fylgja geymslur á jarðhæð, það er nóg af stæðum við blokkina og þá er bara spurning hvort ég eigi frekar að miða á tveggja herbergja íbúð en þriggja. Auðvitað gæti verið gott að vera með auka herbergi en mér sýnist að þurfi að gera minna fyrir minni íbúðina. Ég hafði líka samband við fasteignasala sem er að selja íbúð við Lautarsmára, fasteign sem tvíburahálfsystir mín benti mér á. Sú íbúð  fengist afhent við undirritun. Er búin að bóka skoðun en fundargerð húsfélags bendir til að húsið sé komið á viðhald, eitthvað um leka og ósamkomulag íbúa. Það er ekkert voðalega spennandi tilhugsunar. Nú svo á kannski eftir að "detta" inn enn betri eign og staðsetning. Í augnablikinu er ég samt mjög heit fyrir Núpalind. 

26.8.25

Þriðjudagsmorgunn

Vaknaði rétt fyrir sex í gærmorgun en vissi fljótlega að ég væri ekki tilbúinn til að drífa mig af stað í sund. Ákvað frekar að taka því aðeins rólega til að byrja með og labba frekar í osteostrong tíma upp úr klukkan átta. Var mætt í Hátúnið um hálfníu og komst strax að. Eftir tímann, slökun og vatnsglas labbaði ég aðeins aðra leið heim. Hafði svo hugsað mér að fara frekar í sund seinni partinn og hitta aðeins á kalda potts vinkonu mína. Ekkert varð úr þeim áætlunum því ég bókaði tíma í skoðun á fasteign í blokk við Furugrund í Kópavogi um hálfsex. Um þrjú hringdi Bríet í mig og spurði hvort ég gæti keypt námsefni fyrir hana þar sem lokaði klukkan fjögur og hvorki hún né Bjarki kærasti hennar hefðu náð í bæinn fyrir þann tíma. Ég dreif mig í málin. Ákvað að leggja við Háteigskirkju og rölti þaðan að Brautarholti 8. Rétt áður en ég kom á staðinn hringdi Ingvi mágur minn í mig og bað mig um að kaupa sama námsefni fyrir systur mína. Þær mæðgur voru að hefja meistaranám í kjötiðn í fjarnámi frá MK í gær. Verið var að setja saman námsefnið og ég þurfti að bíða í smá stund eftir að ég var búin að greiða fyrir efnið. Var þó komin út úr versluninni áður en klukkan varð fjögur. Námsefnið seig í á göngunni að bílnum aftur. Næst lá leiðin að N1 við Gagnveg. Umferðin var orðin þung og klukkan var rétt orðin hálffimm þegar ég kom þangað. Bjarki var þá nýkomin á staðinn úr vinnunni sinni frá Selfossi. Davíð Steinn var á vakt og var að afgreiða hann. Svo brunaði pilturinn austur í sveit. Ég stoppaði aðeins lengur og spjallaði við soninn og samstarfsmanninn. Var mætt við Funalind amk tuttugu mínútum fyrir valinn tíma. Beið út í bíl því ég átti von á frænku minni og nöfnu á staðinn. Hún var ekki komin  klukkan hálf svo ég fór upp að skoða og spjalla við fasteignasalann. Frænka mín kom 5 mínútum síðar, hafði villst á staðinn þar sem er opið hús seinni partinn í dag. Leist annars ágætlega á þessa fasteign sem ég skoðaði í gær. Á heimleiðinni kom ég við í Eymundsson í Kringlunni til að kaupa stórt umslag fóðrað með bóluplasti til að setja utan um námsgögnin hennar systur minnar.