Í morgun vaknaði ég rétt fyrir klukkan sex, tæpum hálftíma áður en klukkan átti að hnippa í mig, eftir samfelldan sjö og hálfan tíma svefn. Gerði lóðaæfingar, las í smá stund og fékk mér chiagraut með allskonar fræjum og möndlum í morgunmat. Var mætt fyrir utan Hádegismóa tuttugu mínútum fyrir átta. Vinnudagurinn leið þokkalega fljótt. Sum verkefnin farin að æfast. Kerfið er þó stundum enn að stríða mér. Eftir vinnu fór ég beint yfir í Árbæjarlaug. Synti í tuttugu mínútur, fór í kalda pottinn í fjórar mínútur og svo kalda sturtu áður en ég þurrkaði mér og settist á handklæði inn í infrarauða klefann í kvennaklefanum. Sat þar í tuttugu mínútur. Var komin heim um hálfsjö. Annars kannski ágætt að geta þess að í gær greiddi ég niður húsnæðislánið um eina og hálfa millijón. Er þá búin að greiða það sjálf niður um þrjár millijónir því ég greiddi inn á það sömu upphæð þann 15. nóv. sl. Eftirstöðvar eru enn um átta komma sex millijónir en ég reikna með að föstu greiðslurnar fari niður fyrir sextíuþúsund á mánuði. Ætla að leyfa áramótunum og janúar að líða áður en ég ákveð næstu niðurgreiðslu skref.
Anna Sigríður Hjaltadóttir
Dagbókarkorn!
16.12.25
15.12.25
Á "Stínustöðum"
Rumskaði eitthvað um tvö leytið í nótt. Veit ekki hvenær ég náði að sofna aftur en það var vekjarinn sem ýtti við mér rétt fyrir hálfsjö í morgun. Hafði nægan tíma til að gera nokkrar lóðaæfingar og fá mér afgang af hafragraut í morgunmat. Var nokkrar mínútur að skafa af bílnum en ég var engu að síður mætt fyrst á planið við Hádegismóa rúmum tuttugu mínútum fyrir átta. Stöðvarstjórinn kom nokkrum mínútum síðar. Sú sem er venjulega í afgreiðslunni átti bökunardag í dag og stöðvarstjórinn spurði mig hvort mér væri sama þótt hann skráði sig inn í horntölvuna þar sem hann er vanur að vera. Ég hafði ekkert á móti því. Komst inn að mestu á "Stínustöðum", þurfti smá tæknilega aðstoð vegna tveggja forrita sem ég lærði svo betur á að opna eftir aðstoðina. Við sem vorum í móttökunni hjálpuðumst að og flest gekk alveg þokkalega vel fyrir sig. Rétt fyrir fjögur mætti framkvæmdastjórinn. Hann kom m.a. með bakkelsi mér til heiðurs þar sem ég er nýr starfskraftur og tók mynd af okkur. Ég treysti mér ekki í að smakka þar sem maginn getur verið fljótur að kvarta. Eftir vinnu fór ég í Árbæjarlaug. Synti í korter, fór í þann kalda í 4 mínútur, kalda sturtu á eftir, þurrkaði mér og sat svo korter í infra rauða klefanum. Kom heim rétt rúmlega sex.
14.12.25
Sunnudagur
Mikið varð ég hissa þegar ég sá að klukkan var að verða átta þegar ég vaknaði í morgun. Ég fór reyndar ekki upp í rúm fyrr en um ellefu í gærkvöldi. Horfði á ævintýramyndina á RÚV eftir kappsmál. Las líka í smá stund en ekki lengi og var ég örugglega sofnuð fyrir klukkan hálftólf. Ég fór fljótlega á fætur og m.a. að duna mér við að pakka inn jólagjöfunum. Um hálfníu sendi ég skilaboð á kaldapotts vinkonu mína og spurði hvenær hún ætlaði í sund. Hún svaraði um níu leytið og sagðist ætla að mæta rétt fyrir tíu og synda smávegis. Ég mætti í Laugardalslaugina um svipað leyti og hún og við gátum stillt okkur af. Syntum 300m og fórum nokkrum sinnum í þann kalda. Hún reyndar einni til tveimur ferðum oftar því ég hitti að eins á yngstu mágkonu mömmu og spjallaði um stund við hana. Eftir sundið kom ég við hjá frændfólki í Sæviðarsundi. Pabbi frænda míns og móðuramma mín voru systkyni. Reyndar höfðu hjónin ætlað til Kanaríeyja með afleggjurum og fylgifiskum sínum í tilefni sjötugs afmæli húsfreyjunnar fyrir rúmum mánuði. Hún er því miður að glíma við einhvern heilsubrest sem ekki finnst út hvað er og þau urðu að hætta við. Stoppaði hjá þeim í rúma klukkustund. Var komin heim fyrir tvö og hef ekki farið út síðan en dútlað við ýmislegt, m.a. horft á bráðskemmtilega úrslita leiki á HM kvenna í handbolta þar sem Holland náði þriðja sætinu og Noregur titlinum enn eitt skiptið.
13.12.25
Sundhöllin í morgun
Þegar ég mætti á planið við Laugardalslaug voru grunsamlega fáir á ferli og það leit út fyrir að vera lokað. Sá eina manneskju hálfhlaupa að innganginum en koma svo fljótlega til baka. Ég ákvað því að fara og leggja bílnum á stæði við Austurbæjarskóla og fara í Sundhöllina. Í afgreiðslunni þar fékk ég að vita að það hefði verið jólagleði hjá starfsfólkinu í Laugardalslaug í gær og allir sem voru á vaktinni þurftu ekki að mæta og opna fyrr en um tíu. Ég synti á braut 3 í innilauginn, 650m, flesta á bakinu, á um hálftíma. Fór nokkrar ferðir í þann kalda og þvoði mér svo um hárið áður en ég fór upp úr og beint í esperanto-hitting. Um hálftólf leytið ætlaði ég renna bílnum í gegnum þvottastöðina Löður við Fiskislóð. Var búin að borga og númer tvö af þeim sem biðu úti. Þá kom starfsmaður og sagði að það væri bilun. Hann tók mynd af bílnúmerinu mínu og sagði að mér yrði hleypt inn næst þegar ég væri á ferðinni. Kom við í Krónunni þarna skammt frá áður en ég fór heim. Þegar ég var búin að ganga frá vörunum ákvað ég að heyra aðeins í tvíburahálfsystur minni. Það sem átti að verða smá spjall og stöðutékkun teygði í yfir klukkustund. Ekkert svo löngu eftir spjallið fór ég niður með dót í hina ýmsu gáma bæði í ruslageymslu hússins og gámana hinum megin við götuna. Notaði tækifærið og fór í það sem kalla má örgöngu þar sem labbaði lítinn rúmlega áttahundruð metra hring á tíu mínútum.
12.12.25
Árbæjarlaug og infrarauð gufa eftir vinnu
Ég hrökk aðeins upp stuttu fyrir miðnætti og varð að skella mér á klósettið. Maginn var eitthvað að mótmæla einhverju af því sem ég hafði fengið mér af jólahlaðborðinu. Þetta var samt ekki svo slæmt nema að því leyti að ég sofnaði ekki strax aftur. Veit ekki alveg hvað klukkan var þegar ég festi svefn en þá svaf ég alveg þar til vekjaraklukkan hringdi. Gaf mér nokkrar mínútur áður en ég fór á fætur. Það var samt nógur tími til að taka aðeins fram léttustu handlóðin, 1kg og einnig lesa smávegis. Fékk mér eitt harðsoðið egg og burstaði tennur áður en ég fór í vinnuna. Sem fyrr var ég mætt aðeins of snemma, líklega um sjö mínútum á undan þeim sem kom næst og var með lykla. Á föstudögum er lokað klukkan fjögur og þar sem ég var í Hádegismóum og með sunddótið meðferðist úti í bíl ákvað ég að fara beint í Árbæjarlaugina. Synti í uþb tuttugu mínútur, settist í kalda pottinn í rúmar þrjár mínútur og fór svo inn og í sturtu og þurrkaði mér áður en ég fór í infrarauða klefann í korter. Var komin heim um hálfsjö.