Ég var mætt á braut 8 í Laugardalslauginni tuttugu mínútum yfir átta í gærmorgun. Synti 400 metra þar af 100 metra skriðsund. Þegar ég var að koma úr kalda pottinum, fyrstu ferðinni af þremur, sá ég einn frænda minn sem vinnur í World Class, vera að fara í heitasta pottinn. Ég ákvað að fara að heilsa upp á hann og pottinn og elti hann svo í þann kalda. Með þessu náðum við uþb fimm mínútnar spjalli áður en hann þurfti að fara að stjórna tíma í líkamsræktarstöðinni og ég fór í gufu. Var komin heim upp úr klukkan hálftíu. Hafði verið að spá í að skreppa eina ferð með dót yfir í Núpalindina en ákvað að taka því rólega fram að hádegi. Fékk mér hressingu og pakkaði niður fyrir ferð til pabba. Upp úr klukkan tólf fór ég með mestallt jólakortadótið, handavinnutöskuna og tösku út í bíl. Jólakortadótið var fyrirferðamest en það, ásamt handavinnutöskunni komst þó fyrir í skottinu og ég setti töskuna í aftursætið. Kom við í Fossheiðinni og þáði tesopa. Þar hitti ég einnig fyrir tvíburahálfsystur mína og nágrannakonuna því það var allt á fullu í sláturgerð. Ég var komin til pabba um hálfþrjú leytið. Hann hafði verið sóttur um tíu af tveimur sundfélögum sínum sem fóru með hann í óvissuferð. Hann hélt að hann væri að fara með þá á sömu slóðir og þeir fóru fyrir ári síðan þegar hann var níræður en félagarnir komu honum verulega á óvart. Hann hafði samt alveg jafn gaman af þessu uppátæki þeirra. Pabbi var kominn úr þessari skemmtiferð þegar ég mætti á svæðið. Um hálfsex mættu Jóna Mæja og Reynir á svæðið. Pabbi var þá búinn að hella upp á könnuna og setja upp saltfisk, kartföflur og rófu í einn pott á hægri suðu. Suðan var það hæg að við gátum horft á kvöldfréttir áður en sest var að borðum.
Anna Sigríður Hjaltadóttir
Dagbókarkorn!
19.10.25
18.10.25
Pabbi 91 árs í dag
Ég var mætt á braut 8 og byrjuð að synda um hálfátta í gærmorgun. Synti 600 metra á uþb 28 mínútum, flestar ferðir á bakinu. Fór tvisvar í þann kalda, fyrir gufuferð og eftir ferð í sjópottinn. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr úr og var komin aftur fyrir klukkan hálftíu. Sýslaði ýmislegt hér í Drápuhlíðinni til klukkan langt gengin í eitt. Þá fór ég með nokkra poka og einn kassa út í bíl. Sótti Inger, norsku esperanto vinkonu mína og við byrjuðum á því að fara með þetta dót í nytjagám, spilliefni og almenna draslið í Sorpu. Síðan fórum við yfir í Drápuhlíðina og fermdum bílinn fyrir eina ferð yfir í Núpalind. Dótið sem við fórum með fór allt í geymsluna á fyrstu hæðinni. Síðan fórum við upp í íbúð og tæmdum úr, ferðatöskunni sem ég fór með yfir í fyrra dag, inn í fataskáp í herberginu. Taskan kom með okkur í bílinn. Skruppum í Sports Direct. Aldrei þessu vant voru ekki til uppáhalds sundbolirnir mínir, amk ekki í minni stærð. Fórum aðeins aftur í Núpalindina til að nota salernið en svo fórum við á Smáratorg og skoðuðum sófa og hægindastóla bæði í Dorma og í Jysk. Klukkan var að ferða fjögur þegar við ákváðum að kalla þetta gott. Ég skutlaði vinkonu minni heim og var sjálf komin heim rétt um hálffimm. Fór með leikfangabrunabílinni, sem er búinn að standa vaktina í glugganum á geymslunni í mörg ár, yfir í no 19 og gaf strákunum þeirra Ebbu og Indriða hann. Gerði svo sem ekki mikið meira í gær nema ég setti rúmföt og prjónaðar tuskur, teppi og sjöl í ferðatöskuna.
17.10.25
Búið að mála loftin
Klukkan var að verða hálfátta þegar ég vaknaði í gærmorgun eftir smá köflótta nótt. Tók því bara rólega framan af morgni. Haft var samband við mig frá símanum varðandi flutning yfir í Núpalindina. Þeir þurfa að koma til að setja upp box fyrir mílu. Ég hafði valið 21. og valdi svo tímann um tvö eftir hádegi. Um ellefu fór ég í Húsgagnahöllina til að athuga hvort þeir vissu eitthvað um eldhússtólana sem eru í Núpalindinni. Ef þeir voru seldir þarna þá eru meira en fimm ár síðan og mér var bent á Byko eða Bauhaus til að athuga hvort ég fengi tappa undir stólfæturnar. Gjóaði aðeins augum á sófa en skrapp svo í vinnuna til N1 sonarins. Ekki er alveg ljóst enn hvenær stöðin við Gagnveg verður lokuð en þegar það gerist færist Davíð Steinn á stöðina í Borgartúni. Jafnaði þrýstinginn á dekkjunum áður en ég fór heim og eldaði mér þorsk, kartöflur og gulrætur í hádeginu. Um það leyti sem ég ætlaði á stúfana aftur, um tvö, hringdi frænka mín og nafna í mig. Sú sem hjálpaði mér að undirbúa opna húsið. Eftir ágætis spjall við hana var ég nýbúin að leggja á þegar málarinn hafði samband. Sagði að búið væri að fara tvær ferðir yfir loftið og óhætt að flytja meira dót yfir, bara setja það sem ekki færi í skápa í miðjuna á gólfunum. Lendingin er svo sú að um miðjan dag á þriðjudaginn kemur verði búið að mála tvær umferðir yfir glugga og veggi og íbúðin aftur tilbúin til afhendingar. Hringdi og spjallaði aðeins við tvíburahálfsystur mína áður en ég fór með slatta af dóti út í bíl. Áður en ég lagði upp í leiðangur sendi ég fyrirspurn á símann um hvort hægt væri að færa bókaða tímann um einn dag. Kom aðeins við í Byko í Kópavogi áður en ég fór með dótið yfir í Núpalind. Sumt fór í skápa en eitthvað á gólfið í svefnherberginu þar sem málarinn er með dót frá sér í stofunni. Tók með mér ljósakrónuna sem var í loftinu í herberginu. Hringdi svo í norsku vinkonu mína og spjallaði við hana á meðan ég var á leiðinni heim. Kom heim stuttu fyrir sex.
16.10.25
Fór á húsfund í Núpalindinni
Líklega er heldur snemmt að fara að sofa fyrir klukkan tíu en ég svaf þó samfleytt í heila sjö tíma áður en ég rumskaði. Var komin á fætur fyrir klukkan hálfsex og var að sýsla hér heima við til klukkan langt gengin í ellefu. Þá dreif ég mig í Nauthólsvík. Fékk stæði við einn braggann og var komin út í 8,6°C sjóinn korter yfir ellefu. Synti út að kaðli. Fór beint í gufu og svo smástund aftur út í sjó. Var komin heim aftur um hálfeitt og hélt sýslinu áfram. Um hálfsex lagði ég af stað yfir í Kópavoginn. Umferðin var þung en ég var komin tíu mínútum fyrir sex og á þeim tíu mínútum náði ég að fara tvisvar upp í íbúð og var svo mætt í bílageymsluna á húsfund á slaginu sex. Eignarekstur hafði boðað tilfundarins með góðum fyrirvara og áttu að sjá um hann. Enginn fulltrúi frá þeim mætti hins vegar á svæðið. Ákveðið var þó að halda stuttan fund sem fjallaði um tilboð í viðgerð á þakinu. Innan við hálftíma síðar var ég komin út í bíl. Hringdi í tvíburahálfsystur mína og það varð úr að ég fór beinustu leið til hennar. Hún var að græja kvöldmatinn þegar ég mætti og bauð hún mér að borða með sér. Spjölluðum um eitt og annað. Ég var komin heim um hálfníu orðin smá þreytt eftir langan dag. Fór þó ekki alveg beinustu leið í rúmið, enda heldur snemmt.
15.10.25
Mið vika og október uþb hálfnaður
Vaknaði eiginlega alltof snemma í gærmorgun. Fór þó ekki á fætur fyrr en um hálfsex. Var mætt í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan sjö og fór beint á braut 8. Ég var komin heim aftur fyrir klukkan hálftíu. Afgangurinn af morgninum fór í róleg heit og smá dútl. Hringdi reyndar í Huldu frænku mína og spjallaði smá stund við hana. Hún og kærasti hennar voru svo að fara norður um hádegisbilið og ætla að vera í nokkra daga. Um hálfeitt leytið kom norska vinkona mín yfir. Við byrjuðum á því að fá okkur te en svo fórum við yfir handklæði og þurrkustykki. Sumu var pakkað niður, eitthvað fór aftur inn í skáp í bili og svo setti ég eina þvottavél. Fórum líka yfir nokkra hluti sem enn voru í búrinu. Málarinn hringdi í mig um tvö leytið, sagði að þeir væru að byrja og fékk það alveg staðfest hjá mér að það mætti taka niður veggljósin í stofunni og ljósakrónuna í svefnherberginu. Inger kvaddi um og upp úr miðjum degi. Ég greip í eina bók af safninu, þá næstsíðustu ólesnu af safninu; Fuglaskoðarinn eftir Stefán Sturlu og kláraði hana. Þá á ég bara eftir að lesa KUL eftir Sunnu Dís Másdóttur.